Staðarvalsgreining og forhönnun á að taka 12 mánuði
Helstu fylgismenn byggingar Landspítala við Hringbraut bera fyrir sig þá þvælu að það muni seinka byggingu spítalans um 10-15 ár að hugleiða annan stað, einkum vegna tíma við staðarvalsgreiningu, deiliskipulag og opinberar leyfisveitingar! Þann 11. maí sl. efndu samtökin Betri spítali á betri stað til málþings um byggingu þjóðarsjúkrahúss og flutti íslenski arkitektinn Hallgrímur Þór Sigurðsson, meðeigandi Nordic arkitektastofunnar í Ósló, þar erindi um staðarvalsgreiningu, hönnun og byggingu 10 spítala í Noregi og Danmörku. En arkitektastofa hans hefur mikla sérfræðiþekkingu með um 50 arkitekta sem vinna eingöngu við staðarvalsgreiningu, hönnun og skipulagningu spítala og heilsutengdra verkefna.Í erindi sínu taldi Hallgrímur upp átta nýleg sjúkrahús sem hafa verið byggð eða sem verið er að byggja í Danmörku og Noregi þar sem heildartími staðarvals, hönnunar og byggingar spítalanna er 5-10 ár eftir stærð þeirra og staðsetningu. Athyglisvert var að allir þessir spítalar hafa verið byggðir á nýjum stað í útjaðri viðkomandi borga í staðinn fyrir við gömlu spítalana í miðborginni.
Hallgrímur kynnti sérstaklega verkefni sem hann er að vinna að sem er nýtt háskólasjúkrahús í Stavanger í Noregi sem á að þjóna 360.000 íbúum svæðisins en íbúar Stavanger í dag eru um 140.000 eða svipað og á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Sjúkrahúsið verður 205.000 fm með 650 rúmum. Staðarvalsgreining var gerð á þremur stöðum í Stavanger og fór fram árin 2015-2016 sem fólst í 6 mánaða staðarvalsgreiningu og forhönnunarferli og 6 mánaða pólitísku ferli (deiliskipulag og leyfisveitingar). Hönnun og bygging sjúkrahússins á þeim stað sem valinn var tekur sjö ár og verður það tekið í notkun 2023. Staðarvalsgreiningin sýndi fram á að það var tveimur árum skemmri tími og mun ódýrara en að byggja við gömlu spítalana í miðborg Stavanger.
Kjósandi góður, hvers vegna tekur staðarvalsgreining sjúkrahúsa, deiliskipulag og leyfisveitingar tíu ár á Íslandi en aðeins eitt ár í Noregi?
Höfundur er verkfræðingur og frambjóðandi Miðflokksins í Reykjavík