Skoðun

Betri Kópavogur

Pétur Hrafn Sigurðsson skrifar
Breytinga er þörf í Kópavogi, við þurfum nýjar áherslur í bæjarmálunum og ekki síst nýtt fólk við stjórnvölinn í bænum. Þaulseta við kjötkatlana er engum holl og tækifærið til breytinga er núna.

Hefjumst handa fyrir unga fólkið

Við þurfum að taka til hendinni og bæta aðstæður ungra Kópavogsbúa ekki síst í húsnæðismálum. Tölur um fjölgun íbúa í bænum sýna okkur að uppbygging íbúðarhúsnæðis hefur ekki mætt þörfum unga fólksins sem vill búa í Kópavogi. Aðeins 3% fjölgun ungs fólks en 21% fjölgun fólks milli 60 og 80 ára síðastliðin 4 ár. Við viljum fjölbreytt húsnæði sem ungt fólk og þeir sem eru efnaminni hafi tök á að eignast. Samvinna við húsnæðisfélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni er lykilatriði.

Það eru 100 ónýtt leikskólapláss í bænum, því viljum við breyta með því að stytta vinnutíma starfsfólks í leikskólum og bæta starfsaðstæður og kjör. Við ætlum að brúa bilið og sjá til þess að börn frá 12 mánaða aldri komist í leikskóla. Í grunnskólum þarf að draga úr álagi á kennara og bæta starfsaðstæður og kjör. Styrk til íþrótta- og tómstundastarfs barna og ungmenna munum við hækka í 80.000 kr. á ári og gæta þarf þess að öll börn geti tekið þátt í slíku starfi án tillits til efnahags eða uppruna.



Gleymum ekki öldruðum

Eldri borgarar eiga skilið bestu þjónustu mögulega og við viljum samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun í bænum og auka möguleika þeirra á þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi enda slíkt besta forvörnin.

Umhverfismálin eru okkur mikilvæg og stórt skref er að gera Kópavog plastpokalausan í samstarfi við þjónustuaðila í bænum. Við styðjum borgarlínu og framfarir í samgöngum sem vinna með umhverfinu. Grænn og vænn Kópavogur þar sem menning og listir dafna er framtíðarsýn sem við munum vinna að.



Byggjum betri bæ

Samfylkingin mun áfram vinna í anda jöfnuðar, réttlætis og jafnréttis með það að markmiði að efla og styrkja Kópavog sem sveitarfélag þar sem ungir sem aldnir una hag sínum vel. Við hvetjum bæjarbúa til að leggja okkur lið.

Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi




Skoðun

Sjá meira


×