„Þetta er margbrotinn skóli þar sem áhersla er lögð á sögu í stóru samhengi. Hvernig maður er gestur í öðru landi en ekki bara túristi. Þráður í gegnum þetta er hvernig fólksflutningar hafa átt sér stað í okkar sögu og hvernig maður nálgast nýtt land af virðingu,“ segir hún.
Elín Agla segir að fyrir tveimur árum hafi 25 manna hópur á vegum skólans verið á Íslandi og þar hafi kviknað sú hugmynd að halda námskeið í Árneshreppi þar sem kennt yrði um Bjólfskviðu. Staðurinn hafi verið valinn af kostgæfni. Nú er þessi hugmynd orðin að veruleika og mun hópurinn dvelja á staðnum í fimm daga.

Aðspurð segir Elín Agla að stemningin í Árneshreppi í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna sé mjög góð eins og venjulega en deilur um Hvalárvirkjun og lögheimilisflutninga voru áberandi í aðdraganda kosninganna. Hún viðurkennir þó að koma hópsins sé góð tilbreyting frá því amstri sem kosningunum fylgdi.
„Hér eru allir að vinna að því að taka á vel á móti þessu fólki. Það eru allir í hreppnum allir af vilja gerðir að hjálpa til. Það er sól, fiskur á bryggjunni, lömbin eru úti og góðir gestir komnir. Nú er ég bara að hugsa um það sem skiptir mestu máli, lífið og fólkið. Lífið gæti ekki verið betra.“