Erlent

Sjónvarpskokkurinn Anthony Bourdain látinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Anthony Bourdain var 61 árs.
Anthony Bourdain var 61 árs. Vísir/getty
Bandaríski sjónvarpskokkurinn Anthony Bourdain er látinn 61 árs að aldri. Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN, þar sem Bourdain starfaði, greindi frá þessu í dag.

Í tilkynningu frá sjónvarpsstöðinni kemur fram að Bourdain hafi verið staddur í Frakklandi þar sem hann vann að þætti sínum Parts Unknown fyrir CNN. Vinur Bourdain, franski kokkurinn Eric Ripert, kom að honum meðvitundarlausum á hótelherbergi í morgun. Talið er að Bourdain hafi framið sjálfsvíg. Hann lætur eftir sig ellefu ára gamla dóttur.

Bourdain er af mörgum talinn einn merkasti kokkur í heimi og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir afrek á sínu sviði.

Hann vakti fyrst athygli heimsbyggðarinnar með bók sinni Kitchen Confidential: Adventures in the Culinary Underbelly, sem kom út árið 2000, og þá ferðaðist hann um heiminn fyrir hinar ýmsu stjónvarpsstöðar í gegnum árin við framleiðslu matreiðsluþátta. Þar á meðal eru þáttaraðirnar A Cooks Tour og Anthony Bourdain: No Reservations en sú síðarnefnda hlaut tvenn Emmy-verðlaun.

Bourdain gekk til liðs við CNN-sjónvarpsstöðina árið 2013 og var ellefta þáttaröðin af Parts Unknown frumsýnd á stöðinni í síðasta mánuði.

Þá kom hann í heimsókn til Íslands árið 2014 í fyrstu þáttaröð No Reservations og bragðaði þar hákarl. Hann sagði síðar að hákarlinn væri eitt af því sem hann myndi aldrei leggja sér aftur til munns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×