Ármann fundaði með bæjarfulltrúum flokksins síns í gær vegna þeirra stöðu sem var komin upp í samskiptum meirihluta bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Theodóru Þorsteinsdóttur, oddvita BF Viðreisnar. Þrír bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir efasemdum um áframhaldandi meirihlutasamstarf með Viðreisn sem var þvert á mat flokksleiðtogans, Ármanns, sem taldi að réttast hefði verið að láta reyna á hvort BF Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur gætu ekki haldið áfram að starfa saman. Það var síðast í gær sem Ármann viðraði þá skoðun sína að Sjálfstæðisflokkur ætti að fara í viðræður með BF Viðreisn:
„Mín skoðun er sú að við ættum að setjast niður og fara yfir málin og ræða áframhaldandi samstarf,“ sagði Ármann í samtali við Vísi í gær.
Theodóra segir samtali við í fréttastofu að hún hafi ekkert um þessar nýju viðræður að segja annað en: „Ég óska þess að þeim gangi vel í samstarfi og í þjónustustörfum fyrir íbúa Kópavogs. Ég geng mjög sátt frá borði.“

Hún sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með þessar vendingar innan Sjálfstæðisflokksins því mikil ánægja hafi verið með fráfarandi meirihluta í bænum en hún sagði jafnframt að áframhaldandi samstarf meirihlutans hefðu verið skilaboð kjósenda í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. „Allt í einu snýst þetta bara um einhverjar persónur, sem mér finnst mjög dapurlegt að heyra og upplifa.“
Theodóra segir að málið snúist meðal annars um skemmtiferð bæjarfulltrúa en henni fannst eðlilegt að kjörnir bæjarfulltrúar greiddu fyrir sig sjálfir. Margrét Friðriksdóttir, bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokk, hafi ekki tekið undir það sjónarmið.
„Ég upplifi þetta þannig að gamla pólitíkin er að rísa upp eins og gufustrókur hérna í Kópavogi,“ sagði Theodóra jafnframt í Sprengisandi.
