Sjónvarpsmaðurinn Rodolfo Landeros virðist hafa verið staddur á hóteli í Moskvu og rambað fram á íslenskan stuðningsmann að stýra víkingaklappi fyrir mexíkóska stuðningsmenn. Ekki liggur fyrir hvenær dagsins þetta var en mögulega voru Mexíkóar að fagna 1-0 sigri á Þýskalandi á þjóðhátíðardag okkar Íslendinga.
Má telja líklegt að íslensku stuðningsmennirnir hafi verið í jafnteflisvímu eftir leikinn gegn Argentínu. Landeros birti myndband sem sýnir uppákomuna betur en þúsund orð.
The icelandic-mexican thunderclap. #ISL #MEX #WorldCup pic.twitter.com/f6RMsIVAv7
— Rodolfo Landeros (@RodolfoLanderos) June 18, 2018
Tæplega 200 þúsund manns fylgja Landeros á Twitter og hefur einn á orði að gleðin skíni úr andlitum fólksins.
„Þau voru ekki svo ánægð þegar þau fengu reikninginn fyrir skemmdirnar á granítgólfinu eða marmaranum, hvort sem það nú var,“ segir Landeros og birtir mynd af skemmdunum sem sjá má að neðan.
Hann fullyrðir í öðru svari að Íslendingurinn sem stýrði klappinu hafi þurft að borga reikninginn. Samkvæmt heimildum Vísis þurfti Íslendingurinn þó ekki að greiða neinar bætur.
Vísir hefur ekki tekist að ná í íslenska stuðningsmanninn.
Aaaaand this is what happened afterwards pic.twitter.com/XVJs4vPjPs
— Rodolfo Landeros (@RodolfoLanderos) June 18, 2018