Matthías er frá bænum Blesastöðum á Skeiðum. Hann er mikill sveitastrákur og félagsmálatröll. Hann hefur gaman af hestum, er í íþróttum og finnst fátt skemmtilegra en að ferðast um landið og skoða fallega staði. Matthías mætti í vikunni á sinn fyrsta sveitarstjórnarfund í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Hann er líklega yngsti sveitarstjórnarmaður landsins. Björgvin Skafti Bjarnason, oddviti setti fundinn og bauð nýja hreppsnefnd velkomna til starfa.
„Ég er ungur, ég er 18 ára, fæddur 9. maí árið 2000. Þegar við byrjuðum kosningabaráttuna var ég ekki orðinn 18 ára, þannig að það var mjög gaman að því. Ég trúði því alltaf að ég kæmist inn í sveitarstjórn, umræðan var tveir, tveir einn í sveitinni en svo fór þetta þrír, einn, einn, ég var ekkert hissa þegar ég komst inn,“ segir Matthías.

„Mín málefni eru mikið unga fólkið, ungt fólk og allt sem því við kemur. Ég hef líka mikinn áhuga á íþrótta- og lýðheilsu í sveitarfélaginu, svo náttúrulega húsnæðismál og fleiri skemmtileg verkefni.“
Sveitarstjórinn og sveitarstjórnarmenn eru ánægðir með að fá svona ungan mann inn í sveitarstjórn.
„Þetta er bara flottur ungur drengur, það verður ekkert vandamál með hann held ég. Hann hefur sýnt það á öðrum vettvangi að hann hefur áhuga á félagsmálum og kemur bara mjög sterkur inn í þetta,“ segir Ingvar Hjálmarsson sveitarstjórnarmaður.
„Mér líst vel á strákinn, það er gaman að sjá þegar ungt fólk hefur áhuga á sveitarstjórnarmálum, ég held að hann lofi bara góðu. Þetta er langyngsti maðurinn sem við höfum haft í þessari sveitarstjórn og sennilega á landinu,“ segir Kristófer Tómasson, sveitarstjóri.