Frakkar vinna riðilinn og mæta liðinu sem endar í öðru sæti í íslenska riðlinum. Danir taka annað sætið og mæta því sigurvegara íslenska riðilsins sem er væntanlega lið Króata.
Fyrri hálfleikurinn bauð ekki upp á mikið en seinni hálfleikur var hrein hörmung þar sem hvorugt liðið sýndi mikinn vilja til að skora mark og tryggja sér sigurinn.
Í fyrri hálfleiknum bárust fréttir af því að Perú væri komið yfir á móti Ástralíu og því staða Dana orðin enn betri. Eftir að Perú komst í 2-0 þá varð það jafnframt orðið ljóst að Ástralir ætluðu ekkert að blanda sér í baráttuna um annað sætið riðilsins.
37 - Denmark vs France was the 37th game to be completed at the 2018 World Cup, but the first to finish 0-0. Ennui. #DEN#FRA#DENFRA#WorldCuppic.twitter.com/LUEtWFv0yB
— OptaJoe (@OptaJoe) June 26, 2018
Frakkar voru meira með boltann en sóknarleikur liðsins var einhæfur og hugmyndasnauður. Frakkar vissu að þeir myndu vinna riðilinn næðu þeir í stig og þeir voru ekki að eyða of mikillu orku í leiknum.
Síðari hálfleikurinn rann út í sandinn og seinni hluti hans var næstum því líflaus þar sem leikmenn liðanna voru að dútla með boltann. Það dugði lítið þótt óþolinmóðir áhorfendur hafi púað á rólegheitin.