„Í ljósaskiptum langrar ævi gekk hún bæ frá bæ eða barst með straumi,“ er letrað aftan á legstein flökkukonunnar Vigdísar Ingvadóttur sem afhjúpaður var við Skeiðflatarkirkju daginn fyrir sautjánda júní.
Steinninn er afrakstur söfnunar sem Jóna Sigríður Jónsdóttir frá Litla-Hvammi og fimm aðrar brottfluttar vinkonur hennar og skólasystur úr Mýrdal stóðu fyrir til að heiðra minningu Viggu gömlu sem alþekkt var á sinni tíð þar í héraðinu fyrir flökkulíf sitt.
Jóna er ánægð með velheppnaða athöfn. Þrátt fyrir að einhverjir hefðu áhyggjur af því að tímasetningin, í miðjum leik Íslands við Argentínu á HM í fótbolta, myndi draga úr aðsókninni, mættu um sextíu manns í Skeiðflatarkirkju. „Það var mjög góð stemming og sólin skein á okkur,“ segir Jóna.
Einn þeirra sem viðstaddir voru athöfnina er Sigurður Sigurðarson dýralæknir. Hann segist að jafnvel þótt hann hafi aldrei hittu Viggu gömlu hafi honum þótt vænt um þessa sérstöku förukonu.
„Tengdafaðir minn, Einar bóndi í Kaldrananesi, talaði hlýlega um hana og hún var velkomin alls staðar á ferðum sínum, enda lagði hún ekki fyrir sig að bera sögur á milli bæja, eins og sumir förumenn gerðu,“ segir Sigurður.
Séra Haraldur Kristjánsson, sóknarprestur í Vík, stýrði athöfninni og þrjár konur úr söfnunarhópnum fluttu ávörp. Inni í kirkjunni var sungið „Blessuð sértu sveitin mín“ en hjá legsteini Viggu gömlu söng hópurinn „Ó, Jesú, bróðir besti“.
