Najib Razak, fyrrverandi forsætisráðherra Malasíu, hefur verið kærður fyrir spillingu í embætti. Razak er ákærður fyrir að hafa dregið sér um 700 milljónir dollara, jafngildi um 75 milljarða króna, úr opinberum sjóði sem hann kom sjálfur á laggirnar. Þetta kemur fram í frétt á vef breska ríkisútvarpsins BBC.
Lögreglan hefur þegar lagt hald á eignir og reiðufé upp á 273 milljónir dollara. Rannsókn hófst á opinbera þróunarsjóðnum 1MDB í maí eftir óvæntan kosningaósigur Razaks. Hann hefur lýst sig saklausan af fjórum ákæruliðum og segir að eignir sem hafi verið gerðar upptækar séu lögmætar eignir hans.
