Innlent

Verulegar gróðurskemmdir í friðlandinu að Fjallabaki

Gissur Sigurðsson skrifar
Reglulega berast fréttir af utanvegaakstri í friðlandi að Fjallabaki.
Reglulega berast fréttir af utanvegaakstri í friðlandi að Fjallabaki. Umhverfisstofnun
Verulegar gróðurskemmdir hafa orðið í friðlandinu að Fjallabaki í vor vegna utanvegaaksturs, þótt leiðin sé enn kyrfilega merkt lokuð allri umferð. Ár og jafnvel áratugi getur tekið að græða upp sum sárin.

Fjallabak er svæði á svonefndum „rauðum lista“ Umhverfisstofnunar yfir mjög viðkvæm svæði. Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir skemmdirnar lýsa sér aðallega í hjólförum sem hafa myndast eftir akstur bifreiða utan vega. Þetta séu skemmdir á grónu landi.

Eru dæmi um óafturkræfar skemmdir?

„Þessar skemmdir sem við höfum séð þarna eru margar sem taka ár eða jafnvel áratugi að jafna sig ef ekki er farið í sérstakar aðgerðir til að laga þær.“

Hver á að fara í þær aðgerðir?

„Þetta eru þá aðgerðir sem við höfum gripið til með okkar starfsmönnum eða verktökum sem við fáum til að lagfæra þær. Þetta eru kostnaðarsamar aðgerðir og eru þá kostaðar af Umhverfisstofnun.“

Ólafur segir aðgerðirnar geta verið mjög tímafrekar og því kostnaðarsamar. „Það getur tekið jafnvel nokkrar vikur að lagfæra.“

Hafa komið upp hugmyndir um að vakta þetta, jafnvel með sjálfboðavinnu náttúruverndarfólks?

„Ég hef ekki heyrt af því. Við erum að vakta þetta með okkar starfsfólki og þetta tekur náttúrulega tíma frá öðrum störfum. En við erum að fylgjast með þessum akstri og það eru starfsmenn á okkar vegum á þessu svæði en þeir geta ekki verið alls staðar og þess vegna höfum við verið að biðla til fólks um að aðstoða okkur í því að hafa augun opin,“ segir Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverifsstofnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×