Sjálfstæðisflokkurinn gerðist brotlegur við fjarskiptalög í aðdraganda Alþingiskosninganna á síðasta ári. Þetta er niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar, sem barst kvörtun vegna óumbeðinna símtala frá Sjálfstæðisflokknum. Kvartandinn var bannmerktur í símaskrá.
Sjálfstæðisflokkurinn sagði að viðkomandi hafi verið skráður í flokkinn frá árinu 2004 og því hafi verið heimilt að hringja í hann, þrátt fyrir bannmerkingu. Einstaklingurinn kannaðist þó ekki við að hafa nokkurn tímann verið skráður í flokkinn.
Sjálfstæðisflokkurinn gat ekki framvísað gögnum um skráningu mannsins í flokkinn þrátt fyrir kröfu Póst-og fjarskiptastofnunar.
Í ákvörðun stofnunarinnar segir að gera verði þá lágmarkskröfu til þeirra sem stundi markaðssetningu í gegnum fjarskiptasendingar að þeir varðveiti samþykki móttakanda.
