Innlent

Blendingurinn verður ekki fluttur til Japan

Gissur Sigurðsson skrifar
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals.
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals. Vísir/Anton Brink
Óheimilt verður að flytja kjötið af Blendingshvalnum, sem nýverið veiddist hér við land, til Japans, en þangað hefur nær allt hvalkjöt verið flutt til þessa. Hvalurinn var blendingur af steypireiði og langreiði, en steypireiðin er alfriðuð. Fjallað var um málið í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Þrátt fyrir það telst ekki lögbrot að hafa veitt hvalinn því verndun á ýmsum hvalastofnum nær ekki til blendinga, þótt ýmis dýraverndarsamtök hafa haldið því fram að svo sé. Hvalurinn var skorinn og unninn niður í einingar líkt og tíðkast með aðra hvali.

Matvælastofnun sér um sýnatöku úr öllum veiddum hvölum og sendir niðurstöður um sýnin til Japans, en Japanir krefjast hins vegar ekki vottunar. Að öðru leyti skiptir stofnunin sér ekki af útflutningnum. Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið gefur út kvóta og veiðiheimildir og skiptir sér ekki nánar af útflutningnum.

Hins vegar fara allar útflutningstölur á borð Fiskistofu og þar á bæ fengust þær upplýsingar að útflutningurinn væri ekki heimill til Japans, því Japan og Ísland eru aðilar að Cites samkomulaginu, sem snýst um bann við viðskiptum með afurðir af dýrum í útrýmingarhættu, en steypireiðurinn er í þeim flokki.

Hugsasanlegt væri þó að flytja kjötið til einhvers lands sem ekki er aðili að Cites en neysla á hvalkjöti er afar fátíð annarsstaðar í heiminum.

Ekki náðist í Kristján Loftsson forstjóra Hvals í morgun til að grennslast fyrir um hvað verður af kjötinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×