Erlent

Kim og félagar vilja losna við þvinganir

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Pompeo og Kim Jong-un.
Mike Pompeo og Kim Jong-un. Vísir/EPA
Yfirvöld Norður-Kóreu sendu Bandaríkjunum tóninn í dag og sökuðu Bandaríkjamenn um að ógna friði á Kóreuskaganum. Utanríkisráðuneyti ríkisins sagði yfirlýsingar Bandaríkjanna um að viðhalda refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum gegn Norður-Kóreu kæmu niður á þeim stöðugleika sem hefði myndast.

Embættismenn frá Norður- og Suður-Kóreu vinna nú að því að skipuleggja þriðja leiðtogafund ríkjanna þar sem einræðisherrann Kim Jong-un og forsetinn Moon Jae-in ætla að hittast. Ekki liggur fyrir hvenær til stendur að halda fundinn samkvæmt AFP fréttaveitunni.



Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur ítrekað kallað eftir því að önnur ríki láti ekki af þrýstingi á Norður-Kóreu fyrr en einræðisríkið losar sig við kjarnorkuvopn sín og hleypi eftirlitsaðilum inn fyrir landamæri sín svo hægt væri að sannreyna afvopnunina.

Á fundi Kim og Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í Singapúr í apríl skrifuðu þeir undir óljóst samkomulag. Bandaríkin segja Kim hafa samþykkt að láta kjarnorkuvopn sín af hendi en því eru Norður-Kóreumenn ósammála. Í skjalinu sjálfu stóð að Norður-Kórea myndi vinna að því að afkjarnorkuvopnvæða Kóreuskagann.

Utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu segir að Bandaríkin geti ekki búist við því að einræðisríkið muni vinna að samkomulaginu að nokkrum hætti á meðan ekki sé létt á viðskiptaþvingununum.

 


Tengdar fréttir

Mikilvæg mannvirki rifin í Norður-Kóreu

Gervihnattarmyndir sýna að yfirvöld Norður-Kóreu séu byrjuð að rífa hluta herstöðvar þar sem eldflaugum hefur verið skotið á loft og þær þróaðar.

Segir Norður-Kóreu eiga langt í land

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Norður-Kórea sé ekki að standa við fyrirheit sín varðandi afvopnun og að einræðisríkið sé enn í trássi við ýmsar ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×