Það sem af er ári hafa 202 hjónavígslur verið framkvæmdar af Siðmennt en allt síðasta ár voru þær 213 talsins.
Á vegum félagsins starfa nú á fjórða tug athafnarstjóra en boðið er upp á nafngjafir, útfarir og fermingu auk hjónavígslna.
Samkvæmt upplýsingum frá Siðmennt hefur fjöldi Íslendinga sem kjósa að láta félagið sjá um hjónavígsluna tvöfaldast á síðustu fimm árum. Fjöldi erlendra ferðamanna hefur hins vegar margfaldast á þessum tíma.
„Við bjóðum af og til upp á námskeið fyrir þá sem hafa áhuga á að gerast athafnarstjórar. Það komast færri að en vilja en við munum þurfa að fjölga meira í framtíðinni eftir því sem eftirspurn eykst.“

„Ég held að eftir því sem fleiri eru viðstaddir athafnir á okkar vegum, þeim mun fleiri vita af þessum valkosti og fleiri nýta sér hann. Við höfum ekki auglýst þessa þjónustu sérstaklega. Þetta spyrst einfaldlega út. Það er algengast að við fáum þau svör að fólk hafi heyrt af þessu í gegnum þá sem hafa nýtt sér þjónustuna eða verið viðstaddir athöfn.“
Sjálfur segist Sigurður ekki stjórna mörgum athöfnum en það komi þó fyrir.
„Ég er stundum beðinn um að stjórna athöfnum. Það er ótrúlega gaman og einstaklega gefandi að taka þátt í þessu. Ég held að fólk sé að leita að persónulegri athöfn þar sem áherslan er á einstaklingana sjálfa, óháð einhverjum trúarbrögðum. Við leggjum áherslu á hið sammannlega.“
Það er algengt að erlendir ferðamenn sem koma hingað til lands til að láta gifta sig kjósi að láta athöfnina fara fram úti í náttúrunni.
„Við förum í rauninni hvert sem er þangað sem brúðhjónin óska. Það getur verið undir fossi, inni í helli en líka bara heima í stofu. Við erum líka stundum inni í Fríkirkjunni en þar er heimilt að vera með veraldlegar hjónavígslur.“