Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra tók í dag fyrstu skóflustunguna að nýrri gas- og jarðgerðarstöð SORPU í Álfsnesi. Um er að ræða stærsta verkefni Sorpu frá því að fyrirtækið hóf starfsemi árið 1991.
„Með tilkomu stöðvarinnar verður gjörbylting í meðhöndlun heimilisúrgangs á höfuðborgarsvæðinu og urðun lífræns úrgangs verður liðin tíð,“ segir í tilkynningu um verkefnið frá Sorpu.
Áætlað er að stöðin verði komin í fullan rekstur fyrri hluta árs 2020 og mun hún anna allt að 35.000 tonnum af lífrænum heimilisúrgangi. Markmiðið með gas- og jarðgerðarstöðinni er að nýta sem best allan lífrænan úrgang sem til fellur á heimilum á höfuðborgarsvæðinu, s.s. matarleifar, gæludýraúrgang o.fl.
„Ekki aðeins nýtast næringarefnin sem felast í lífrænum heimilisúrgangi, heldur einnig orkan sem verður til við niðurbrot úrgangsins,“ segir í tilkynningu.
Ársframleiðsla stöðvarinnar verður annars vegar um 3 milljónir Nm3 af metangasi, sem hægt er að nýta sem eldsneyti á ökutæki, og hins vegar 10-12.000 tonn af jarðvegsbæti, sem hentar vel til landgræðslu.
Þá er ætlað að metanframleiðsla SORPU muni tvöfaldast með tilkomu gas- og jarðgerðarstöðvar og gæti metanið þá komið í staðinn fyrir um fimm milljónir bensínlítra árlega.
Metanið gæti komið í stað fimm miljóna bensínlítra á ári
Kristín Ólafsdóttir skrifar
