Fjarskiptastofnun Bandaríkjanna hefur lokað útvarpsstöð sem Alex Jones, stofnandi samsæriskenningasíðunnar Infowars, hefur rekið án leyfis undanfarin ár. Rekstraraðilar stöðvarinnar hafa jafnframt verið sektaðir.
AP-fréttastöðin segir að útvarpsstöðin hafi verið rekin án leyfis að minnsta kosti frá árinu 2013. Fjarskiptastofnunin hafi rakið útsendingu stöðvarinnar til útvarpsmasturs í íbúðabyggð í borginni Austin í Texas.
Svo virðist þó að útvarpsútsendingum stöðvarinnar sem kallar sig Frelsisútvarpið hafi verið hætt í desember. Dagskrá hennar er þó enn send út á netinu.
Jones hefur verið gerður brottrækur af nokkrum stærstu samfélagsmiðlum heims undanfarið. Þá hefur honum verið stefnt fyrir meiðyrði vegna þeirrar fullyrðingar sinnar að foreldrar barna sem voru myrt í Sandy Hook-fjöldamorðinu árið 2012 séu í raun leikarar sem hafi sett harmleikinn á svið.