Arnór Björnsson tryggði Njarðvík ævintýralegan sigur gegn Haukum á útivelli en með sigrinum fór Njarðvík upp fyrir Hauka í Inkasso-deildinni.
Bæði lið voru fyrir leikinn í bullandi fallbaráttu en Njarðvíkingar komust yfir með marki frá Brynjari Frey Garðarssyni á 40. mínútu.
Ekki skánaði það fyrir heimamenn í Haukum er Gunnar Gunnarsson fékk beint rautt á 70. mínútu frá dómara leiksins, Aðalbirni Heiðari Þorsteinssyni.
Haukarnir náðu hins vegar að jafna metin á 87. mínútu en þar var að verki Aron Freyr Róbertsson. Flestir héldu þá að niðurstaðan yrði jafntefli en gestirnir voru ekki á sama máli.
Arnór Björnsson, sem er uppalinn í Haukunum, gerði sér lítið fyrir og þrumaði boltanum í slá og inn, mínútu eftir mark Arons, og tryggði Njarðvík þar af leiðandi 2-1 sigur.
Hrikalega mikilvægur sigur fyrir Njarðvík sem lyfti sér upp í sjöunda sætið með sextán stigum, fjórum stigum frá fallsæti. Haukarnir eru í tíunda sæti, tveimur stigum frá fallsæti.
Úrslit og markaskorarar eru fengnir frá Fótbolti.net.

