Lögreglukona var flutt með sjúkrabíl á Landspítalann eftir að maður í annarlegu ástandi veittist að lögreglu á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar skömmu fyrir hádegi í dag. Þetta staðfestir Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Hann gat ekki gefið frekari upplýsingar um líðan lögreglukonunnar en staðfesti að hún hefði verið blóðug í andliti eftir átök við manninn. Sá var handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Lögregla sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu vegna atviksins á öðrum tímanum:
Nú skömmu fyrir hádegi var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi á Grensásvegi. Er lögregla kom á vettvang brást maðurinn ókvæða við afskiptum lögreglu og veittist að þeim. Í átökunum féllu lögreglumennirnir og maðurinn í götuna með þeim afleiðingum að annar lögreglumannanna skall harkalega með höfuðið í götunni og vankaðist við það. Hann var í framhaldi fluttur með sjúkrabifreið á Slysadeild til aðhlynningar og er þar ennþá til skoðunar.
Maðurinn var handtekinn og færður í fangageymslur lögreglunnar.
Uppfært klukkan 13:20 með tilkynningu lögreglu.
Lögreglukona flutt blóðug á sjúkrahús eftir átök við Grensásveg
Kristín Ólafsdóttir skrifar
