Ráðið sagði starfsmenn reyna að bjarga eins mörgum og unnt væri. Hins vegar héldi tala látinna áfram að hækka. Nú þegar hafi verið tekið á móti líkum 29 barna, allra innan við fimmtán ára, og 48 særðum, þar af 30 börnum.
Sádi-Arabar sögðust í gær hafa beint árásinni að eldflaugaskotpöllum sem notaðir hafa verið til að skjóta á sádiarabísku borgina Jizan. Voru Hútar, uppreisnarmennirnir sem hernaðarbandalagið berst gegn í Jemen, jafnframt sakaðir um að nota börn til að skýla sér fyrir skothríðinni.
„Árás dagsins í Saada var lögmæt hernaðaraðgerð og var gerð í samræmi við alþjóðalög,“ sagði í yfirlýsingu hersins sem birtist á ríkisfréttastöðinni SPA.
Al-Masirah, sjónvarpsstöð Húta, sagði á Twitter í gær að 39 hefðu fallið í árásunum og 51 særst. Hútar vildu þó ekki svara ásökunum Sádi-Araba um að hafa notað börn sér til varnar. Sagði miðillinn börnin í rútunni hafa verið á leið á námskeið um Kóraninn.

Í kjölfarið bauð Martin Griffiths, erindreki Sameinuðu þjóðanna í Jemen, fylkingunum til friðarviðræðna í Sviss. Óvíst er hvort þær viðræður bera árangur, en síðustu viðræður fóru fram í Kúveit fyrir tveimur árum.
Mæti sendifulltrúar fylkinganna til viðræðna munu þær hefjast þann 6. september næstkomandi í Genf.
Hernaðarbandalagið hefur gert fjölda loftárása á Jemen undanfarið. Samkvæmt Al Jazeera voru 258 árásir gerðar í júnímánuði einum. Þar af þriðjungur á skotmörk ótengd hernaði. Yemen Data Project greindi frá því að 24 árásir hafi verið gerðar á íbúabyggð, þrjár á vatns- og rafmagnsinnviði og þrjár á sjúkrahús.
AP greindi frá því fyrr í vikunni að hernaðarbandalagið hafi gert leynilega samninga við hryðjuverkasamtökin al-Kaída í Jemen og ráðið til sín hermenn úr þeirra röðum.
Heimildarmenn sögðu frá því að Bandaríkjamenn, sem styðja hernaðarbandalagið, hafi vitað af samningnum en þeir eiga sjálfir í átökum við samtökin.
Bandaríkin hafi í þokkabót hætt drónaárásum á al-Kaída á meðan á viðræðunum stóð. Þessu neitaði talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins.