Hinn grunaði var handtekinn á Spáni en ekkert hafði spurst til hans mánuðum saman. Lögreglan komst á sporið eftir að hafa framkvæmt umfangsmestu lífsýnarannsókn í réttarsögu Hollands.
Verstappen var í sumarbúðum þegar hann hvarf úr tjaldi sínu í ágúst árið 1998. Lík hans fannst degi síðar. Fyrrnefndur Bresch var búsettur í nágrenni sumarbúðanna þegar drengurinn var myrtur. Lífsýni sem fundust á líki Verstappen voru borin saman við fjölda lífsýna, þeirra á meðal voru erfðaefni sem tekin voru úr ættingjum hins grunaða og eru þau sögð hafa komið lögreglunni á sporið.
Sjá einnig: Leita manns í tengslum við morðið á hinum ellefu ára Nicky
Í yfirlýsingu sem lögreglan í Limburg sendi kom fram að Brech hafi verið handtekinn í gærkvöldi. Unnið sé nú að því að fá hann framseldan frá Spáni til Hollands.

Ekki fylgir þó sögunni hvernig lögreglan komst á snoðir um staðsetningu mannsins. Sem fyrr segir hafði ekkert heyrst til hans síðan í febrúar síðastliðnum og var lengi talið að hann væri niðurkominn í Frakklandi.
Morðið á Verstappen vakti mikinn óhug í Hollandi á sínum tíma. Vísbendingar voru af afar skornum skammti, utan erfðaefnis ókunnugs karlmanns sem fannst á fötum drengsins. Í kjölfarið hrinti lögregla af stað umfangsmestu DNA-rannsókn í sögu Hollands þar sem tekin voru sýni úr fjórtán þúsund karlmönnum. Brech var ekki einn þeirra.