FH er fallið úr Pepsi deild kvenna eftir tap gegn Val á Hlíðarenda í kvöld. Stjarnan vann öruggan sigur á KR.
FH þurfti sigur til þess að eiga raunhæfan möguleika á að halda sér í efstu deild. Gestirnir byrjuðu af krafti en fengu mark í andlitið strax á fimmtu mínútu.
Elín Metta Jensen var ein inni á vítateig FH og þá þarf ekki að spurja að leikslokum.
Hlín Eiríksdóttir skoraði annað mark Vals á 36. mínútu og átti hún eftir að láta meira til sín taka. Staðan var 2-0 í hálfleik og eftir markalausan seinni hálfleik skoraði Hlín tvö mörk á fimm mínútna kafla undir lok leiksins og fullkomnaði þrennuna.
Niðurstaðan 4-0 sigur Vals og FH spilar í Inkasso deildinni á næsta tímabili.
Á Samsungvellinum í Garðabæ mættust Stjarnan og KR. Stjörnukonur hafa að litlu að keppa en KR er í bullandi fallbaráttu.
Fyrri hálfleikur var markalaus og öll þrjú mörk Stjörnunnar í leiknum komu á níu mínútna kafla í seinni hluta síðari hálfleiks.
Megan Dunnigan átti fyrsta markið á 76. mínútu, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir bætti við á 82. mínútu og Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði síðasta mark leiksins á 85. mínútu.
Grindvíkingar, sem eru í fallsæti með 10 stig, geta jafnað KR að stigum með sigri á ÍBV á morgun. Markatala KR er hins vegar mun betri heldur en Grindvíkinga og ættu þær því að haldast í öruggu sæti, að minnsta kosti út þessa umferð.
FH fallið eftir þrennu frá Hlín
Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
