Umgjörðin um leikinn var með besta móti og var sett áhorfendamet á kvennalandsleik á Laugardalsvelli en 9636 horfðu á leikinn úr stúkunni og uppselt var á leikinn.
Þrátt fyrir góða umgjörð vakti eitt atvik fyrir leik athygli. Eftir að spilun þjóðsöngs Þýskalands lauk var óvenju löng bið eftir að þjóðsöngur Íslands, Lofsöngur Matthíasar Jochumssonar, hæfist. Í framhaldinu heyrðust hljóð sem vallargestir og sjónvarpsáhorfendur þekkja úr Windows stýrikerfi Microsoft. Leikmenn og áhorfendur brostu ýmist eða skelltu upp úr.
Allt í einu heyrðist svo í laginu sem var þá löngu hafið. Aftur heyrðist bjölluhljóð Microsoft og var uppákoman hin vandræðalegasta.
Heyra mátti mistökin í útsendingu Stöðvar 2 Sport eins og sjá má hér að neðan.