Nýjasta stýrikerfið fyrir snjalltæki Apple, iOS 12, er komið út og hafa tæknimiðlar vestan hafs fjallað ítarlega um þær nýjungar sem finna má í stýrikerfinu.
Sá eiginleiki sem hefur vakið mesta athygli er einfaldur. Kerfið er sagt auka hraða og afkastagetu snjalltækja Apple svo um munar. Þá býður stýrikerfið upp á svokallaða „Live Listen“ stillingu fyrir þráðlausu heyrnartólin AirPods sem eiga í raun að breyta heyrnartólunum í heyrnartæki.
Öryggi í stafrænum heimi hefur verið í deiglunni undanfarin misseri og eru nýir stillingarmöguleikar stýrikerfisins til þess gerðir að auka öryggi notenda. Hægt er að hafa flóknari lykilorð en í eldri stýrikerfum og krefjast SMS-skilaboða fyrir innskráningar.
Sé eigandi símans að nota sama lykilorð fyrir marga aðganga minnir stýrikerfið notandann á að það sé óöruggt og ráðleggur eigandanum að breyta lykilorði sínu.
