Ræstingafólk, sem starfaði um helgina við hreingerningar í flugvél á Keflavíkurflugvelli, fann kannabisefni við eitt sæti vélarinnar. Lögreglumenn í flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum voru kallaðir um borð í flugvélina, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu á Suðurnesjum.
Um var að ræða talsvert magn af kannabisefnum í loftþéttum plastumbúðum ofan í plastíláti.
Þá hafði lögregla einnig afskipti af ökumanni á leið frá flugstöðinni en sá var með of marga farþega í bílnum. Í aftursætinu sat móðir með barn sitt í fanginu og var barnið því hvorki í öryggisbelti né barnabílstól.
Ökumaðurinn var sektaður en tveir farþegar yfirgáfu bílinn og fóru fótgangandi aftur að flugstöðinni. Barnið var sett í barnabílstól sem hafði verið geymdur í farangursrými bifreiðarinnar, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.
