Slóvakinn Maros Sefcovic, einn varaforseta framkvæmdastjórnar ESB, hefur lýst yfir að hann sækist eftir því að taka við embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar þegar Jean Claude Juncker lætur af störfum eftir kosningarnar til Evrópuþingsins á næsta ári.
Hinn 52 ára Sefcovic hefur að undanförnu farið með málefni orkubandalagsins innan framkvæmdastjórnarinnar. Hann er fulltrúi Jafnaðarmannaflokksins SMER í Slóvakíu og hefur lengi starfað í Brussel, fyrst sem sendiherra Slóvakíu frá árinu 2004 og svo sem fulltrúi Slóvakíu í framkvæmdastjórninni frá árinu 2010. Hann vonast til að verða frambjóðandi fylkingar Jafnaðarmanna á Evrópuþinginu.
Leiðtogaráð ESB mun tilnefna næsta forseta framkvændastjórnarinnar þar sem því er ætlað að taka tillit til niðurstöðu kosninganna til Evrópuþingsins.
Evrópuþingið hefur talað fyrir því að forsetinn verði valinn úr hópi frambjóðenda fylkinganna á þinginu. Deildar meiningar eru þó um þá skoðun.
Evrópuþingmaðurinn Manfred Weber, leiðtogi Evrópska þjóðarflokksins (EPP) á Evrópuþinginu, lýsti fyrr í mánuðinum yfir að hann vilji verða næsti forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
