Karlmaður lét högg dynja á lögreglubíl með öxi í Reykjanesbæ í dag þegar lögreglumenn brugðust við tilkynningu vegna heimilisófriðar. Bíllinn er ekki í nothæfu ástandi eftir atganginn en maðurinn er nú í haldi lögreglunnar.
Þegar lögreglumenn komu á vettvang kom maðurinn á móti þeim með öxi og hóf strax að höggva í lögreglubílinn. Töluverð átök þurfti til að yfirbuga manninn, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Suðurnesjum. Engan sakaði þó í þeim átökum.
Maðurinn var handtekinn og færður í fangageymslur. Rannsókn á málinu er í gangi. Lögreglubifreiðin er sögð mikið skemmd að framan og ekki í nothæfu ástandi.
