Þegar rætt var við Eddu Hermannsdóttur, samskiptastjóra Íslandsbanka, segir hún bankann ekki hafa tekið þátt í neinum viðræðum.
Spurð hvort Íslandsbanki hefði rætt við aðra banka um hugsanlega aðkomu að fjármögnun að WOW Air sagðist hún hvorki geta staðfest það né neitað. Ekki hefur náðst í bankastjóra Arion eða Landsbankans en fjölmiðlafulltrúar þeirra banka hafa varist fregna í dag.
Vinna flugfélagsins WOW Air við skuldabréfaútboð er í fullum gangi. Skúli Mogensen sagði í samtali við Bloomberg í síðustu viku að tíðinda af útboðinu væri að vænta öðru hvoru megin við helgina. Í svari WOW við fyrirspurn Vísis í gær sagðist Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi flugfélagsins, geta skýrt nánar frá því í vikulok.

Landsbankinn og Íslandsbanki eru í eigu íslenska ríkisins en rætt hefur verið um aðkomu ríkisins vegna rekstrarvanda WOW Air.
Greint var frá því í júlí síðastliðnum að fjögur ráðuneyti hefðu unnið að viðbragðsáætlun vegna hugsanlegra áfalla í rekstri mikilvægra atvinnufyrirtækja sem gætu kallað á viðbrögð af hálfu stjórnvalda. Sú vinna stendur enn yfir.
Morgunblaðið greindi frá því í gær að stjórnvöld hefðu fundað um liðna helgi vegna málefna flugfélagsins WOW air.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra iðnaðar- og ferðamála, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 á mánudag að það væru engin sérstök tíðindi þó að hópurinn hefði komið saman til fundar um liðna helgi. Bætti hún við að það standi ekki til að ríkið hlaupi undir bagga með WOW Air.
Þórdís vinnu stjórnvalda ekki einblína á ytri aðstæður nú heldur sé horft til framtíðar varðandi mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir Ísland.