Á sjötta tímanum í gær handtók lögregla ölvaðan mann í miðborginni. Er lögreglumenn höfðu afskipti af manninum gekk hann aðeins til hliðar og fór að kasta af sér vatni. Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Rétt fyrir klukkan 1 í nótt var bifreið stöðvuð í Austurborginni. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna og hótanir. Þá fór hann ekki að fyrirmælum lögreglu en maðurinn var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.
Á níunda tímanum í gærkvöldi voru svo afskipti höfð af manni í Vesturbænum vegna vörslu fíkniefna. Málið var afgreitt á vettvangi.
Þá voru fjórir ökumenn til viðbótar stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna og/eða án ökuréttinda.
Hóf að kasta af sér vatni er lögregla hafði afskipti af honum
Kristín Ólafsdóttir skrifar
