Karlmaður var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri eftir alvarlegt vinnuslys í kísilveri PCC á Bakka síðdegis í dag. Slysið er sagt hafa átt sér stað þegar starfsmenn voru að tappa af fljótandi málmi úr öðrum ofni verksmiðjunnar.
Ríkisútvarpið sagði fyrst frá slysinu í kvöld og hafði eftir fyrirtækinu að starfsmaðurinn hafi orðið fyrir höggi af verkfæri sem er notað til að tæma ofnana. Maðurinn sé ekki lífshættulegar slasaður.
Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri í Norðurþingi, segir við Vísi að maðurinn hafi verið áttaður og ekki í beinni lífshættu þegar komið var að honum. Slysið sé þó flokkað sem alvarlegt vinnuslys.
