Ökumaður svarts Volkswagen bíls á leið suður Kringlumýrarbraut ók bíl sínum áleiðis yfir gatnamótin á eldrauðu ljósi. Grænt ljós var komið á fyrir bíla á leiðinni austur eða vestur Háaleitisbraut. Nissan jeppi, sem var fremstur á ljósunum á leið vestur, ók af stað yfir gatnamótin en fékk skyndilega Volkswagen bílinn inn í hliðina á sér.
Nissan jeppinn valt ekki en kastaðist á þriðja bíl sem beið handan gatnamótanna á leiðinni yfir þau.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu slasaðist enginn alvarlega í árekstrinum. Nokkrar tafir urðu á umferð um gatnamótin á meðan viðbragðsaðilar sinntu vinnu á vettvangi.
Málið er til rannsóknar hjá lögreglu. Rétt er að taka fram að tímastimpillinn í myndbandinu að neðan er rangur.
Nánar verður fjallað um málið í fréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.