Innlent

Fá heimild til að sekta fyrir heimagistingu án leyfis

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir,  Ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. VÍSIR/EYÞÓR
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, mun leggja fram á Alþingi frumvarp um breytingar á lögum um gististaði heimagistingu. 

Frumvarpið var birt á samráðsgátt stjórnvalda í morgun en það breytir ákvæðum laga varðandi heimagistingu. Í tilkynningu frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að verði frumvarpið samþykkt af Alþingi munu lög um heimagistingu krefjast þess að skráning heimagistingar verði bundin við bæði þinglýst eignarhald og lögheimili en samkvæmt núgildandi löggjöf er skráning eingöngu bundin við lögheimili.

Núgildandi löggjöf veitir sýslumanni heimild til að vísa málum til viðkomandi lögreglustjóra ef grunur leikur á að leyfisskyld gististarfsemi sé rekin án tilskilinna leyfa. Í nýja frumvarpinu breytist þetta og fá sýslumannsembættin nú heimild til að beita stjórnvaldssektum gagnvart hverjum sem rekur leyfisskilda gististarfsemi án leyfis.

Að lokum er gert ráð fyrir að sýslumaður fái heimild til að beita stjórnvaldssektum ef aðili með skráða heimagistingu en skilar ekki inn svokölluðu nýtingaryfirliti sem er yfirlit þar sem fram koma upplýsingar hvaða daga húsnæði var leigt út og hvaða tekjur viðkomandi vann sér inn vegna leigu á húsnæði í heimagistingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×