Handbolti

Guðmundur: Vanmet aldrei neinn andstæðing

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, segist aldrei vanmeta andstæðinga sína en á miðvikudag mætir Ísland Grikkland í Laugardalshöll í undankeppni EM 2020.

Auk Grikklands eru Makedónía og Tyrkland í riðlinum ásamt Íslendingum en landsliðsþjálfarinn er með fæturnar á jörðinni þrátt fyrir lítt þekkta leikmenn gríska liðsins.

„Ég vanmet aldrei neinn andstæðing. Ég er búinn að venja mig á það frá því að ég var ungur maður. Í þessum þjálfarabransa er það eitthvað sem maður gerir ekki,” sagði Guðmundur. En þekkti hann einhverja leikmenn gríska liðsins?

„Nei. Ég skal alveg játa það. Þetta er alveg óskrifað blað og sem er að mörgu leyti mjög óþægilegt. Við erum búnir að skoða myndband af þeim en mér finnst erfitt að átta mig á styrkleika þeirra.”

„Þess vegna erum við á tánum og þurfum að klára þetta með sóma. Þeir eru með lið í mótun og hafa verið að spila ágætis vörn og eru með flinka, tekníska leikmenn. Þeir voru stundum að gera óvænta hluti sem að maður þarf að sjá við.”

„Ég ætla ekki að fara tala þetta lið upp í eitt það besta í heimi. Það er ekki það en við þurfum að vinna þennan leik,” sagði Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×