Ellefu starfsmönnum frystihúss HB Granda á Vopnafirði var sagt upp störfum í dag. Áður hafði þremur starfsmönnum verið sagt upp hjá frystihúsinu og þá munu tveir starfsmenn til viðbótar láta fljótlega af störfum. Ekki verður ráðið í stað þeirra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá AFLi starfsgreinafélagi.
Störfum á Vopnafirði fækkar því um sextán á stuttum tíma, sem er afar stórt hlutfall af heildarstöðugildum í bænum.
Samkvæmt því sem AFL kemst næst eru flestir starfsmannanna sem sagt var upp af erlendum uppruna og búsettir á Bakkafirði. Þá mun AFL hafa samband við Vinnumálastofnun og kanna hvort lög um fjöldauppsagnir eigi við í umræddu tilfelli, þar sem innan við hundrað starfsmenn eru starfandi í frystihúsinu.
Fyrst var greint frá málinu á vef Austurfrétta. Þar er haft eftir Sverri Mar Albertssyni, framkvæmdastjóra AFLs, að hann hafi þungar áhyggjur af áhrifum uppsagnanna á samfélagið.
