SUS hefur sent frá sér ályktun þar sem þessi ummæli eru hörmuð.
„Orðræða af þessu tagi lýsir gríðarlegum vanskilningi á málstað þeirra fjölmörgu Íslendinga sem styðja aðskilnað ríkis og kirkju, en um er að ræða baráttumál SUS til margra áratuga og samþykkta stefnu Sjálfstæðisflokksins á landsfundi. Það er afar ómálefnalegt að afskrifa málstað þeirra sem styðja aðskilnað ríkis og kirkju með þeim hætti sem Bjarni gerði.“

„Slíkt fyrirkomulag felur í sér mikið ójafnræði milli trúfélaga og er á skjön við lífsskoðanir fjölmargra Íslendinga, en sá hópur fer stækkandi með hverjum deginum og samanstendur af þjóðfélagshópum af öllum aldri og pólitískum skoðunum, og stendur í engu sambandi við reynslu fólks af áföllum í lífinu.“
Undir tilkynninguna skrifa Ingvar S. Birgisson formaður SUS og Andri Steinn Hilmarsson varaformaður. Þeir segja að SUS leggi áherslu á mikilvægi þess að Sjálfstæðisflokkurinn beiti sér fyrir auknu frelsi og dragi úr inngripum ríkisins í líf fólks. „Afar óeðlilegt er að formaður Sjálfstæðisflokksins standi í vegi fyrir frelsismálum sem flokksmenn og gríðarstór hluti þjóðarinnar styður.“