Lífeyrissjóðurinn Birta keypti í gær 400 þúsund hluti í fjarskiptafyrirtækinu Sýn. Sé miðað við gengi gærdagsins má ætla að viðskiptin nemi rúmlega 20 milljónum króna.
Eftir viðskiptin á Birta 5,2 prósenta hlut í Sýn og voru viðskiptin því flögguð í Kauphöllinni í morgun. Birta er eftir viðskiptin orðinn sjöundi stærsti hluthafinn í félaginu. Fjárfestingasjóðurinn Lansdowne er stærsti hluthafinn í Sýn með 12,18 prósenta hlut og annar lífeyrissjóður, Gildi, er sá næst stærsti með rúmlega 11 prósent.
Það hefur ekki blásið byrlega um bréf í Sýn það sem af er degi. Bréfin hafa fallið um 9,7 prósent í rúmlega 70 milljóna viðskiptum frá því að markaðir opnuðu í morgun. Ætla má að lækkunina megi rekja til afkomuviðvörunar sem Sýn sendi frá sér í gær. Í henni kom fram að útlit væri fyrir að EBIDTA félagsins, rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, yrði lægri en gert hafi verið ráð fyrir.
Vísir er í eigu Sýnar hf.
