Innlent

Minnast látinna í Víkurgarði

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Sóknarnefnd Dómkirkjunnar kærði í sumar byggingarleyfi vegna hótelsins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Sóknarnefnd Dómkirkjunnar kærði í sumar byggingarleyfi vegna hótelsins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
„Það er löng hefð fyrir því að minnast látinna á allra heilagra messu. Það er gert með helgistundum og því að fara í kirkjugarða,“ segir Elínborg Sturludóttir dómkirkjuprestur en í kvöld verður haldin ljósastund í Víkurgarði.

Klukkan 18 verður helgistund í Dómkirkjunni en síðan verður gengið í Víkurgarð og ljós lögð á leiði þar. Elínborg segir að auk þess sem verið sé að minnast þeirra sem hvíla í garðinum sé um að ræða friðsöm mótmæli gegn fyrirhugaðri hótelbyggingu.

„Við erum að minna á að það hvíla 30 kynslóðir Reykvíkinga í þessum elsta kirkjugarði borgarinnar. Þetta er einn helgasti staðurinn í Reykjavík. Þessar framkvæmdir eru ósvinna og margir eru mjög ósáttir við borgina í þessu máli. Við vildum vekja athygli á þessu.“

Hún segir að það væri til að mynda skrýtin tilhugsun ef einhverjum dytti í hug eftir 100 ár að byggja hótel í Hólavallagarði.

Sóknarnefnd Dómkirkjunnar kærði í sumar byggingarleyfi vegna hótelsins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Telur sóknarnefndin að Víkurgarður sé í umsjón Dómkirkjunnar og leggst alfarið gegn framkvæmdum í garðinum.

Marinó Þorsteinsson formaður sóknarnefndar segir að það hljóti að fara að styttast í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. „Við fengum þær upplýsingar í haust að vonandi yrði komin niðurstaða í byrjun október en við bíðum enn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×