Innlent

600 andlit að láni á sólarhring

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Katrín Oddsdóttir.
Katrín Oddsdóttir. Fréttablaðið/Stefán
Hundruð kvenna lánuðu andlit sitt til stuðnings nýrri stjórnar­skrá og fóru viðbrögðin fram úr björtustu vonum.

„Við settum auglýsingu eftir andlitum inn á hópinn og áttum kannski von á einhverjum tuttugu til fjörutíu andlitum. Þegar ég vaknaði [í gærmorgun] höfðu 500 skráð sig og svo bættust hundrað við yfir daginn,“ segir Katrín Oddsdóttir lögmaður.

Katrín var ein þeirra 25 sem skipuðu stjórnlagaráð sem skilaði af sér frumvarpi að nýjum stjórnskipunarlögum árið 2012 en það náði ekki fram að ganga. Reglulega er kallað eftir nýju stjórnarskránni.

„Þetta eru konur á öllum aldri og öllum stigum þjóðfélagsins. Sumar eru trans, sumar eru fatlaðar og þarna eru forstjórar, lögfræðingar, leikkonur. Í raun eru þarna konur alls staðar frá. „Like“ á Facebook er eitt og undirskrift er annað en þegar maður sér öll þessi andlit saman komin þá verður þetta allt miklu meira,“ segir Katrín.

Andlitasöfnunin fer fram í Facebook-hópnum Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá sem í eru ríflega 2.300 konur. Markmiðið var að setja saman auglýsingu til birtingar á fullveldisafmælinu 1. desember.

„Við erum eiginlega pínu dolfallnar yfir viðbrögðunum. Gallinn er hins vegar sá að undirtektirnar eru slíkar að það verður erfiðleikum háð að koma þessu fyrir í heil­síðuauglýsingu. En við munum finna lausn á því svo allar komist fyrir,“ segir Katrín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×