Myndbandið er stutt, um hálf mínúta, en þar sagði Jón verkið hafið og þakkaði um leið öllum sem hafa tekið þátt.
Í myndbandinu heyrist sá sem mundar slípirokkinn tilkynna Jóni að myndin muni ekki einu sinni fara heldur einnig hvítur bakgrunnur á álplötunni. „Já, já,“ svarar Jón og er verkinu haldið áfram.
Jón tilkynnti á Facebook-síðu sinni í gær að hann hefði, að höfðu samráði við eiginkonu sína, ákveðið að farga verkinu. Jón hefur verið gagnrýndur fyrir að taka verkið með sér heim af borgarstjóraskrifstofunni eftir að hann lét af embætti, en áður hafði hann greint frá því að Banksy hefði sett það sem skilyrði fyrir gjöfinni að verkið myndi hanga upp á veg skrifstofu borgarstjóra.
Jón sagði að hann hefði tekið verkið með sér heim til minningar um borgarstjóratíðina og sagði það ekki eins verðmætt og látið hefur verið að í fjölmiðlum. Sagði hann þetta í raun bara plakat sem hægt væri að kaupa fyrir lága upphæð á netinu.
Hann sagðist ætla að farga verkinu því það færði honum enga gleði lengur.
Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Jón Gnarr deildi á Twitter þar sem myndin er pússuð af plötunni.
#Banksy pic.twitter.com/Dgw6fzPJCI
— Jon Gnarr (@Jon_Gnarr) November 14, 2018