Skoðun

Virðing Alþingis – fólk í lífshættu

Tryggvi Gíslason skrifar
Fjölga á aðstoðarmönnum þingflokka á Alþingi um sautján til þess að auka virðingu þingsins, að því er Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði í fréttum á dögunum. Virðing Alþingis hefur aldrei verið minni frá því mælingar hófust, þannig að sannarlega er þörf á að auka virðingu þess. Endurheimt virðingar Alþingis felst hins vegar ekki í því að fjölga aðstoðarmönnum þingflokkanna heldur í því að bæta störf og framkomu alþingismanna sjálfra.

Fækkun alþingismanna

Íslendingar eru fámenn þjóð og vafamál hvort við höfum hæfan mannafla og fjármuni til þess að halda uppi svo fjölmennu þingi með 63 alþingismönnum. Sé borinn saman fjöldi þingfulltrúa í Danmörku, Noregi og Svíþjóð ættu alþingismenn á Íslandi að vera 10 talsins og sé litið til Bretlands og breska fulltrúaþingsins ættu alþingismenn á landinu kalda að vera sjö.

Með því að fækka alþingismönnum um helming og hækka laun þeirra um helming mætti gera ráð fyrir að hæfara fólk fengist til þessara mikilvægu starfa. Þannig væri auk þess unnt að spara ríkissjóði yfir tvo milljarða króna í rekstrarútgjöldum á ári. Með fækkuninni væri einnig unnt að hætta við fyrirhugaða skrifstofubyggingu fyrir Alþingi, sem er í burðarliðnum, en í frumathugun Framkvæmdasýslu ríkisins er mælt með því að ráðast í skrifstofubyggingu á Alþingisreitnum. Samkvæmt þarfagreiningu og húsrýmisáætlun er þörf fyrir um 5.000 m² nýbyggingu ásamt um 750 m² bílakjallara – bílakjallara! Stærð alls um 5.750 m². Byggingarkostnaður er áætlaður 2.588 milljónir króna, en þá er ekki tekið tillit til verðbóta og kostnaður vegna skrifstofu- og tækjabúnaðar. Þarna væri því unnt að spara um þrjá milljarða í byggingarkostaði og um einn milljarð á ári í rekstrarkostnað. Alls nemur árlegur rekstrarkostnaður, sem spara mætti með þessum hætti, um þremur milljörðum króna.

Hjálp við fólk í lífshættu

Þessu fé – þremur milljörðum króna á ári – væri unnt að verja til þess að afnema með öllu skatta á lágtekjufólki, fólki sem hefur minna en 400 þúsund krónur í mánaðartekjur, og koma til aðstoðar fólki í lífshættu – í lífshættu vegna notkunar áfengis og annarra vímuefna – og leggja einn milljarð til rekstrar meðferðarstofnunar á Vogi. Þannig mætti einnig auka virðingu Alþingis, sem er lífsnauðsyn lítilli menningarþjóð.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×