Með Kárahnjúkastíflu var afrennsli Brúarjökuls fært yfir í Lagarfljót sem gerði Jökulsá á Dal að bergvatnsá. Þessi mikla umbreyting á forugasta fljóti landsins varð árið 2006 en bændur beggja megin ár voru þá þegar búnir að átta sig á að þetta gæti boðið upp á ný og verðmæt tækifæri.

„Þetta hefur gengið ótrúlega hratt að byggja þessa á upp sem laxveiðiá,“ segir Aðalsteinn.
Hann segir menn sannfærða um að áin hefði farið yfir þúsund laxa í sumar ef yfirfallið á stíflunni hefði ekki komið óvenju snemma í ár, sem var 5. ágúst. Yfirfallið hélst til 19. september og var þá enn mikill lax í ánni. Það geri sölu veiðileyfa erfiðari að menn vita aldrei hvenær áin fari á yfirfall.

„Við skulum gá að því að þetta eru bara ellefu ár síðan þetta ævintýri fór af stað. En ég hef þá trú að þetta komi til með að auka verðgildi jarða hér og þetta gefur möguleika til atvinnu. Ungt fólk á að geta farið í leiðsögn með veiðimönnum og skapað sér tekjur og atvinnu,“ segir Aðalsteinn.

„Svo náttúrlega er þetta bara svo ljótt á litinn og hefur valdið landbroti og landspjöllum ýmsum,“ segir Ásmundur Þórarinsson, skógarbóndi á Vífilsstöðum í Hróarstungu.
„Fyrir 150 árum létu menn sig dreyma um að Lagarfljót gæti orðið stærsta laxveiðifljót í Evrópu. En kannski er bara Jökla að verða það,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, en hann er frá Litla-Bakka í Hróarstungu og situr í stjórn Veiðifélags Jökulsár á Dal.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2: