Samkvæmt frétt á vef SOS Barnaþorpanna á Íslandi fengu 567 sjálfboðaliðar þjálfun til að kenna fjölskyldunum á vatnshreinstækið. „Það nemur styrk UV sólargeislanna sem drepa sýkla og örverur og er þannig búið að á því getur bæði birst broskarl og fýlukarl. Ef plastflaska full af vatni er látin standa úti í sólinni og tækið við hliðina á, gefur broskarlinn til kynna að vatnið sé orðið drykkjarhæft. Svo lengi sem fýlukarlinn er á tækinu, er vatnið enn ódrykkjarhæft. Með þessu móti er hægt að sporna við sjúkdómum sem orsakast vegna skítugs drykkjarvatns,“ segir í fréttinni.

SOS Barnaþorpin á Íslandi vinna verkefnið í samvinnu við yfirvöld á Tulu-Moye svæðinu og heimafólk. Markmið þess er að auka hæfni og getu þessara fjölskyldna til að standa á eigin fótum og mæta þörfum barnanna svo velferð þeirra sé tryggð til framtíðar. Skjólstæðingar verkefnisins fá aðgang að heilsugæslu, mataraðstoð, menntun og fræðslu ásamt því að þeir geta fengið vaxtalaust örlán frá SOS Barnaþorpunum. Framlögum Fjölskylduvina SOS Barnaþorpanna á Íslandi er ráðstafað í verkefnið og annað sambærilegt í Perú.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.