Dregið hefur úr áhuga Ástrala á að slíta tengslin við Bretland og að lýsa yfir stofnun lýðveldis. Áhuginn hefur ekki mælst minni í aldarfjórðung og er það að einhverju leyti rakið til heimsóknar Harry Bretaprins og Meghan til landsins í síðasta mánuði.
Könnun Newspoll sýnir að fjörutíu prósent aðspurðra segjast vilja að Ástralir lýsi yfir sjálfstæði. Hlutfallið var fimmtíu prósent í sambærilegri könnun sem framkvæmd var skömmu fyrir heimsókn þeirra Harry og Meghan.
Af þeim 1.800 sem þátt tóku í könnuninni sögðust 48 prósent var andvíg því að Ástralía myndi hætta að vera hluti breska heimsveldisins og þar með hafa Elísabetu Bretadrottningu sem þjóðhöfðingja.
Vilja þjóðaratkvæðagreiðslu
Verkamannaflokkurinn í Ástralíu lýsti því yfir fyrr í dag að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um málið, komist flokkurinn til valda eftir þingkosningarnar í vor.
Harry og Meghan voru í þriggja vikna heimsókn í Eyjaálfu þar sem þau heimsóttu meðal annars Ástralíu, Nýja-Sjáland, Tonga og fleiri Kyrrahafseyjar. Þetta var fyrsta opinbera heimsókn parsins til erlends ríkis.