Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, rifjar upp að MeToo-byltingin hafi byrjað fyrir ári. Þar hafi konur í stjórnmálum ekki hvað síst átt frumkvæði og stigið margar fram til að segja frá sinni upplifun af kynbundinni orðræðu og kynferðislegri áreitni.
„Það er dapurlegt að skynja þessi viðhorf ekki síst í garð stjórnmálakvenna sem skína út úr þessum samtölum sem þarna hafa birst,“ segir Katrín.
Þótt þingmennirnir hafi ekki verið í opinberum erindagjörðum hafi þeir verið innan um almenning þar sem allir gátu hlýtt á það sem þeirra fór á milli.
„Okkur ber skylda til að umgangast embætti okkar af virðingu og ég verð að segja að mér finnst þetta ekki gott fyrir okkur stjórnmálamenn og okkur þingmenn. Þetta mun hafa áhrif á virðingu Alþingis og virðingu stjórnmálanna og það er mjög dapurlegt,“ segir forsætisráðherra.
Þetta muni einnig hafa áhrif á samskipti fólks og flokka í þinginu. Þetta afhjúpi það kynbundna orðalag sem vakin hafi verið athygli á í me-too byltingunni gagnvart konum og öðrum hópum sem hún sjálf kannist við.
„Þar sem er talað um stjórnmálakonur með tilteknum hætti. Mjög niðrandi hætti sem er engum til sóma sem kemur að. Auðvitað hefði ég vonað að við værum komin lengra í jafnréttisátt en að fólk væri enn á þessum stað. En auðvitað er þetta eitthvað sem maður kannast við,“ segir Katrín Jakobsdóttir.
Þeir þingmenn sem þarna eigi hlut að máli verði að gera það upp við sig hvernig þeir bregðist við.
Siðareglur ná út fyrir veggi þingshússins
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir alls ekki eðilegt að þingmenn tali með þessum hætti um samþingsmenn sína. „Þetta er óafsakanlegt og óverjandi, það orðbragð sem þarna virðist hafa verið notað. Alveg sérstaklega sorglegt að sjá svona talað um konur í stjórnmálum,“ segir forseti Alþingis.Þetta verði rætt í forsætisnefnd, væntanlega á vettvangi formanna þingflokka og jafnvel í þingsal. Siðareglur Alþingis kveði á um að þingmenn tali hver um annan af virðingu.
Siðareglurnar almennt. Gilda þær bara hér innanhúss eða ná siðareglur þingmanna út fyrir veggi Alþingishússins?
„Já, þær gera það og við gerðum það mjög fortakslaust í breytingum síðastliðinn vetur. Einmitt í framhaldi af metoo hreyfingunni. Að þeir þættir siðareglnanna gilda um þingmenn alls staðar sem þeir eru sem þingmenn og á almannafæri,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.
Katrín ræddi einnig málin í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.