Í samskiptum við fréttastofu sagðist Sigmundur geta staðfest að hann hafi ekki sagt Karl Gauta og Ólaf hafa átt frumkvæði að hinum svokallaða fundi þingmannanna sex. Hann segist hins vegar hafa haft orð á því að hann vissi af óánægju Karls Gauta og Ólafs við „margt í Flokki fólksins.“ Sigmundur sagðist þó ekki hafa tekið fram um hvað óánægja þingmannanna tveggja snerist.
Inga stendur við orðin og bendir á aðra formenn
Fréttastofa hafði samband við Ingu Sæland til þess að fá viðbrögð við ummælum Sigmundar um málið. Þar sagðist hún standa við orð sín og benti fréttastofu á að hafa samband við formenn annarra stjórnarandstöðuflokka máli hennar til stuðnings.Þegar fréttastofa hafði samband við Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, vildi hann í fyrstu ekki tjá sig um málið, en sagði að í ljósi þess að bæði Inga og Sigmundur hafi tjáð sig við fjölmiðla mætti koma fram að Logi hefði túlkað orð Sigmundar á svipuðum nótum og Inga.
Þá hefur fréttastofa heimildir fyrir því að aðrir formenn stjórnarandstöðuflokka hafi ekki getað skilið orð Sigmundar á annan hátt en svo að Karl Gauti og Ólafur hafi átt frumkvæði að fundinum að Klaustri.