Fundur OPEC mun fara fram í Vínarborg á fimmtudaginn og á föstudaginn en olíuverð hefur lækkað verulega að undanförnu. Með því að draga úr framleiðslu vilja ríkin koma í veg fyrir frekari lækkun og jafnvel ná fram verðhækkun.
Síðast var dregið úr framleiðslu undir lok árs 2016 og þá um 1,8 milljónir tunna á dag.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sendi frá sér tíst í dag þar sem hann hvatti ríkin til að draga ekki úr framleiðslu. Hann hefur ítrekað haldið því fram að olíuverð sé of hátt en ein ástæða þess hve mikið olíuverð hefur lækkað er að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum hefur aukist mikið.
„Heimurinn vill ekki sjá og þarf ekki hærra olíuverð,“ sagði forsetinn.
Hopefully OPEC will be keeping oil flows as is, not restricted. The World does not want to see, or need, higher oil prices!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 5, 2018
Meðal þess sem deilt er um er hve mikið hver þjóð á að taka á sig. Rússar hafa stungið upp á því að minnka framleiðslu um 150 þúsund tunnur en Sádar segja það koma of mikið niður á þeim.
Málið veltur í raun á þeim Vladimir Pútín, forseta Rússlands, og Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu. Þeir komust að samkomulagi um síðustu helgi um nánara samstarf varðandi olíuframleiðslu.