Steingrímur segir fundinn ekki hefjast með hefðbundnum hætti.
„Við erum að undirbúa ýmislegt og eitt af því er upphaf fundarins og menn geta velt því fyrir sér hvort það sé líklegt að hann byrji án þess að þetta á einhvern hátt komi við sögu,“ segir Steingrímur.

Þingmenn sem Fréttablaðið náði tali af í gær eru á einu máli um að þingstörf verði að komast í fastar skorður nú þegar síðasti mánuður ársins er runninn upp og að minnsta kosti þrjú risastór mál enn ókláruð í þinginu, það eru fjárlög, samgönguáætlun Sigurðar Inga Jóhannssonar og veiðigjaldafrumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar.
Þingmenn hafa sín á milli varpað fram ýmsum hugmyndum um hvernig hægt sé að koma þingmönnum Miðflokksins og Flokks fólksins í skilning um að þeir geti ekki og vilji ekki starfa með þeim og að þeir þurfi að víkja hið snarasta. Hugmyndir hafa verið uppi um að víkja úr þingsal ef þeir ætli sér að taka til máls og hvaðeina til að þrýsta á afsögn þeirra.
Einn þingmaðurinn sem Fréttablaðið talaði við í gær segir það ekki koma til greina að einstaklingar, sem hafa orðið fyrir barðinu á þessum sex manna hópi, þurfi að sitja nefndarfundi, eða þá koma fyrir nefndir, þar sem þessir þingmenn eru fyrir á fleti.
Ekki náðist í nokkurn þingmanna Miðflokksins við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.