Einn þeirra sex þingmanna sem sátu að sumbli á Klaustursbar kallaði Eygló Harðardóttur, fyrrverandi félags-og húsnæðismálaráðherra „galna kerlingarklessu“ að því er fram kemur á vef Stundarinnar.
Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Bergþór Ólason þingmenn Miðflokksins sátu að sumbli með Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni þingmönnum Flokks fólksins á Klausturbar þann 20. nóvember síðastliðinn. Samtöl þingmannanna voru tekin upp og send til DV og Stundarinnar.
„Hún bjó í Vestmannaeyjum, þess vegna studdi hana enginn,“ á ónefndur þingmaður að hafa sagt við samstarfsfólk sitt. „Það var ekkert í henni, það er ekkert í henni. Það var ekkert að frétta hjá þessari konu. Galin Kerlingarklessa.“
Eygló Harðardóttir var á Alþingi frá árinu 2008-2017 og var félags-og húsnæðismálaráðherra á árunum 2013-2017.
Voru reknir úr Flokki fólksins
Stjórn Flokks fólksins tók þá ákvörðun klukkan tvö í gær að reka Karl Gauta og Ólaf Ísleifsson úr flokknum fyrir framgöngu sína á Klausturbar. Niðurstaðan er tekin á þeim grundvelli að þeir hafi verið staðnir að því að vinna gegn meginmarkmiðum og hagsmunum flokksins. Atkvæði voru greidd um tillöguna en átta voru fylgjandi henni og aðeins einn var á móti.
Uppfært kl. 14:22
Karl Gauti sendi í dag frá sér yfirlýsingu þess efnis að upptökurnar hefðu verið mjög óskýrar en að hann væri, eftir að hafa marghlustað á upptökurnar, viss um að orðin væru ekki hans. Fjölmiðlar hefðu ranglega eignað honum ummælin. Frétt og fyrirsögn hafa verið uppfærð.
Eygló Harðardóttir kölluð galin kerlingarklessa
Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
