Erlent

May snýr tómhent heim frá Brussel

Kjartan Kjartansson skrifar
Pólitísk framtíð May forsætisráðherra og útgöngu Breta úr ESB er óljós eftir atburði vikunnar. May svaraði spurningum eftir fund með evrópskum leiðtogum í dag.
Pólitísk framtíð May forsætisráðherra og útgöngu Breta úr ESB er óljós eftir atburði vikunnar. May svaraði spurningum eftir fund með evrópskum leiðtogum í dag. Vísir/EPA
Ætli Bretar sér að ganga úr Evrópusambandinu með útgöngusamningi er sá sem Theresa May forsætisráðherra samdi um það eina sem er í boði. Þetta sagði May eftir viðræður hennar við leiðtoga Evrópusambandsins í Brussel. Hún vildi tryggingar frá ESB til að friða harðlínumenn í eigin flokki en fór bónleið til búðar.

May frestaði atkvæðagreiðslu í breska þinginu um útgöngusamning hennar á þriðjudag. Þá var ljóst að samningurinn yrði kolfelldur. Hún stóð af sér vantrauststillögu þingmanna Íhaldsflokksins á miðvikudagskvöld. Forsætisráðherrann hefur síðan freistað þess að fá frekari tryggingar frá Evrópusambandinu um fyrirvara í samningnum til að reyna að vinna honum stuðning í þinginu.

Stærsta málið er svonefnd baktrygging um landamæri Írlands og Norður-Írlands. Í samningi May við ESB er kveðið á um að Bretar fari eftir viðskiptareglum á meðan unnið er að varanlegri lausn sem kemur í veg fyrir að koma þurfi upp landamæra- og tollaeftirliti á Írlandi.

May reyndi að fá pólitískar og lagalegar skuldbindingar frá ESB um að baktryggingin yrði tímabundin ráðstöfun. Tilraunir hennar til þess virðast engan árangur hafa borið. Höfnuðu Angela Merkel Þýskalandskanslari og Emmanuel Macron Frakklandsforseti að semja upp á nýtt.

Töldu May ekki tala skýrt um hvað hún þyrfti

Eftir fund með leiðtogum sambandsins í Brussel í dag sagði May að mikið verk væri fyrir höndum um hvernig hægt væri að fá frekari tryggingar sem breska þingið krefðist til að samþykkja samninginn.

„Ég segi það aftur, það eru yfirgnæfandi hagsmunir allra þjóða okkar, í Evrópusambandinu og Bretlandi, að ljúka þessu af og eins hratt og auðið verður, sagði hún.

Evrópskir leiðtogar eru hins vegar sagði hafa verið lítt móttækilegir fyrir kröfum May eftir það sem þeir töldu þvergirðingshátt breska forsætisráðherrans á fundum þeirra í gær. Hún hafi ekki gefið skýr svör um hvað hún þyrfti nákvæmlega til að koma samningnum í gegn. Hún hafi jafnvel farið með gamalt slagorð sitt um að „Brexit þýðir Brexit“.

„Að segja „Brexit þýðir Brexit“ meira en tveimur árum eftir að þetta hófst allt var það sem herti hina leiðtogana í afstöðu sinni,“ hefur Reuters eftir einum evrópskum diplómata.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×