Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Miðflokksins segist treysta Önnu Kolbrúnu til að sitja áfram í velferðarnefnd Alþingis en samkvæmd dagskrá velferðarnefndar Alþingis í morgun stóð til að taka á móti gestum vegna vinnu við þýðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Á dagskrá var einnig lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Á meðal umsagna um það mál er erindi frá Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis segir stöðuna erfiða því mikilvægt sé að þingið geti reitt sig á faglega ráðgjöf og umsögn frá gestum nefnda.
„Nú er þetta í sjálfu sér [...] fordæmalaust. Þetta hefur ekki gerst áður. Auðvitað hafa allir rétt á því að hafa skoðun sína á því sem er að gerast í þjóðfélaginu en það hefur hins vegar ekki gerst áður að fulltrúar opinberrar stofnunar hafi ákveðið að – hvað á ég að segja – hundsa einhverja ákveðna starfsemi Alþingis. Hvort að þingið bregst einhvern veginn við því það á bara eftir að koma í ljós. Hitt er það að Anna Kolbrún Árnadóttir er náttúrulega kjörinn fulltrúi Alþingis með umboð til fjögurra ára,“ segir Þorsteinn um stöðuna sem er uppi.

„Flokkarnir hafa í sjálfu sér völd til þess að skáka fólki til í nefndum ef þeir kjósa svo en í okkar tilfelli og hennar Önnu Kolbrúnar er engin þörf á því. Hún nýtur trausts okkar til þess að sitja í þessari nefnd. Hún hefur langa reynslu af því að vinna með fötluðum og ber hag þeirra fyrir brjósti og það er engin þörf að okkar mati til þess að fara að breyta því eitthvað.“
Þorsteinn segist ekki gera neina athugasemd við ákvörðun fræðimannanna.
„Fræðimenn mega að sjálfsögðu hafa þá skoðun og þær skoðanir sem þeim dettur í hug og þeir kjósa en það er eins og ég segi í fyrsta skipti sem einhver hópur fræðimanna eða nefnd eða einhver deild í háskólanum ákveður að hundsa einhverja ákveðna nefnd hér í þinginu.“
Þorsteinn segir að viðbrögð þingsins eigi eftir að koma fram.
„Nefndin verður náttúrulega að athuga það hvort hún ræður við að vinna án þess að njóta þjónustu þessa góða fólks, það á eftir að koma í ljós. Eins og ég segi síðan eiga náttúrulega viðbrögð þingsins við þessu bréfi sem hingað barst eftir að koma fram. Þau eru ekkert klár núna eða ekkert ljós.“